Viltu slást í hópinn?

Type of post: Choir news item
Sub-type: No sub-type
Posted By: Arnar Halldórsson
Status: Current
Date Posted: Tue, 1 Sep 2020
Karlakór Reykjavíkur leitar að liðsauka og framundan eru raddpróf fyrir áhugasama söngmenn.
Við prófum raddsvið og tónheyrn og finnst það kostur ef þú býrð yfir kunnáttu í tónlist og nótnalestri, sem þó er ekki skilyrði.
Ef þú hefur áhuga á að spreyta þig, ert fimmtugur eða yngri skaltu senda okkur línu á netfangið kor@kkor.is fyrir 15. september næstkomandi og við höfum samband við þig um hæl.

Karlakór Reykjavíkur stefnir að því að halda úti venjulegu starfi eins og kostur er á þessum fordæmalausu tímum. Hefðbundið starfsár einkennist af tveimur hápunktum; annars vegar aðventutónleikum í Hallgrímskirkju, sem í ár fara fram dagana 12. og 13. desember. Eftir áramót hefjast svo æfingar fyrir vortónleika í Langholtskirkju þar sem afrakstur vetrarstarfsins er lagður fram og að þeim loknum gleðjast kórfélagar og makar þeirra yfir liðnum vetri og fagna vorkomu.

Karlakór Reykjavíkur var stofnaður 1926 og hefur starfað samfleytt síðan. Kórinn býður upp á krefjandi og skemmtileg viðfangsefni í tónlist og skemmtilegt félagsstarf í góðum félagsskap. Söngferðir til útlanda eru farnar reglulega auk þess sem byggðir landsins eru heimsóttar til tónleikahalds. Kórinn æfir alla þriðjudaga auk eins fimmtudags í hverjum mánuði, tvo tíma í senn og fara æfingar fram í safnaðarheimili Háteigskirkju.